Svar; ALLA, auk allra þeirra aðila sem mögulega er hægt að fá til að vinna að málinu. Ef vel er haldið á spilunum gæti verið um að ræða mjög atvinnuskapandi málefni sem gefur yfir 600 manns atvinnu í yfir 2 ár.
Það þarf allan þingheim til að ræða málið. Hvenær á að skipta um peruna, hvernig á að gera það, hver á að gera það, hvaða tól á að nota, þarf að hafa slökkviliðið á staðnum, hvað með heilbrigðiseftirlitið, hverjar eru afleiðingar þess að skipta um peru, hvernig er hægt að komast hjá því að skipta aftur um peru og að lokum má ekki sleppa því að skipta um peruna.
Aðstoðarmenn þeirra eru nauðsynlegir til að undirbúa þingmenn undir umræður. Sjá til þess að þingmenn segi nú ekki eitthvað rangt, spyrji ekki rangrar spurninga, sendi ekki póst á vitlausan aðila, svari öllum spurningum með spurningum. Þeir brýna á algengum frösum "við erum að skoða málið" "við erum að velta öllum hliðum fyrir okkur" "málið er ekki komið á það stig" "ég get ekki tjáð mig um það að svo stöddu" "um leið og niðurstaða er komið í málið" o.sv.frv.
Ráðuneyti verða að gefa álit sitt á umræðunni og koma með tillögur svo þingmenn geti sagt eitthvað vitrænt. "sérfræðingar okkar eru að skoða málið" "verið er að útbúa skýrslu, greinagerð, lögfræðiálit, álitsgerð o.sv.frv."
Síðan er málið sett í nefnd, í það minnsta þrjár nefndir því það þarf að skoða þetta út frá heilbrigðismálum, fjárhagsmálum og utanríkissmálum, hver nefnd verður að kalla í það minnsta 5 innlenda sérfræðinga auk þess sem erlend sérfræðiálits verður að liggja fyrir. Þingmenn segja svo "málið er í nefnd" "nefnd er að fara yfir málið" "búið er að skipa í nefnd" "nefndarálit liggur fyrir og við erum að fara yfir það".
Ég er með tillögu, skiptið bara um helvítis peruna.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli