Þarna sjáum við ungan mann sem átti eftir að vinna, baki brotnu ansi lengi. En hann vann við að framleiða, búa til og laga. Ævisparnaðurinn hans hvarf vegna þess að nokkrir jakkafataklæddir einstaklingar vildu verða stórir jakkafataklæddir einstaklingar, hvort sem það voru hálfvitar hjá lífeyrissjóðunum sem kunna ekki að reikna(vita ekki hvað örugg ávöxtun er) eða forstjórar Eimskips sem ekki kunna að reka fyrirtæki (vita ekki hvað kjarnastarfsemi er). Sem betur fer þá lifði hann ekki til að sjá það gerast. Hann Tóti er holdgerfingur þeirra sem fengu/fá nánast ekkert frá því ríki sem þeir hafa byggt upp og nú er búið að rífa niður og færa 20 ár aftur í tíman.
Það er svo sem ekkert að því, forgangsröðunin hlýtur um leið að breytast hjá okkur. Í það minnsta þá fæ ég alveg svakalega nostalgíu þegar ég horfi á þessa mynd. Hugsa með söknuði til baka þegar ég var í sveit. Hvað allt hefur breyst á 20 árum. Ekki endilega til góðs, en maður á þó í sig og á í dag. Það var ekki sjálfsagt þegar ég var yngri, hvað þá þegar Tóti var að alast upp. Nostalgían hjá manni nær frekar til hugarástandsins sem var, tíðarandans. Ég væri ekki til í að þræla mér út fyrir smáaura árið 1950 en lögin, sveitin og sakleysið er eitthvað sem ég sakna og langar helst að hoppa 20-58 ár aftur í tímann og njóta í smá stund í stað þess að flýta mér að verða stór, njóta fólksins og dýranna í kringum mig, í stað þess að drífa sig heim til að lesa Lukku Láka eða Morgan Kane.
En einhverstaðar verður maður að byrja og einhverntíma, ég ætla til ömmu næstu helgi. Það má ekki bíða, það gæti orðið einn af þessum hlutum sem maður saknar innan örfárra ára.
vertu sæll Tóti, ég sakna þín