sunnudagur, nóvember 17, 2002

Rafrænar kosningar
Ekki alls fyrir löngu var svo komið hjá mér að ég var orðinn leiður á því að horfa á sjónvarpið enda var það í lit, við vitum jú að sjónvarp í lit er alger fásinna og peningabruðl, og tók mér því bók í hönd. Þar var greint frá því þegar nokkrir forkólfar íslensk mannlífs riðu til þings og upphöfðu mótmæli gegn áformum ríkisvaldsins um að innleiða síma hér á landi. Þessu forkólfum, sem voru þjóðþekktir einstaklingar með reynslu, þekkingu og ættarnöfn úr öllum stigum þjóðfélagsins fannst það hin argasta vitleysa að eyða peningum sínum í aðra eins bólu og síma, bólu sem myndi springa eftir tvö til þrjú ár. Hér á Íslandi var nefnanlega alveg óþarfi að setja upp slík tól þar sem pósturinn var fljótur í förum. Hvað er jú einfaldara en að merkja með blýanti inn á blað?
Hvaða þröngsýni er þarna að verkum? Hér var ekki um þröngsýni að ræða. Hér var um að ræða einstaklinga sem sáu svo langt fram á veg að þeim stóð ógn af. Ógnin sem fólst í því að aukin framlegð og bætt samskipti yrðu á kostnað þeirrar sveita sælu sem þeir bjuggu við. Sú hagræðing sem þar skapast rann hugsanlega í vasa annarra en þeirra kónga sem stjórnuðu auði landsins. Það sama verður sagt um þá framsýnu menn er þaggað hafa niður í nýsköpun á sviði kosninga hér á landi. Þeir sjá aðeins einn hlut. Ógild atkvæði, hvað þýðir það ef fólk færi allt í einu að kjósa annað hvort okkur eða hina. Þrjú til Fimm prósent atkvæða í kosningum hér á landi eru ógild, 60 % þeirra falla jú í annan farveg en æskilegt gæti talist. Þrjú til Fimm prósent sem bætist ofan á sveitalúðana, rauðsokkurnar og alla þá komma sem eftir lifa í þessu þjóðfélagi. Guð forði okkur frá þessu. Ég legg máli mínu til stuðnings úrslit rafrænna kosninga hjá einmitt sjálfstæðisflokknum á seltjarnarnesi.
Pétur Kjartansson formaður kjörnefndar Sjálfstæðisflokksins á Seltjarnarnesi sagði það mikilvægt að byrja með rafrænar kosningar í sveitarstjórnar-kosningum, þar sem öryggið væri meira í en í kosningum með hefðbundnum hætti og auk þess sé mikið í húfi hjá íslenskum hugbúnaðarfyrirtækjum. Í prófkjöri sjálfstæðismanna á Seltjarnarnesi kusu 1.622 manns, þar af 1.085 rafrænt. Pétur segir að hjá þeim sem kusu rafrænt hafi enginn seðill verið ógildur en 55 af 537 hjá þeim sem kusu handvirkt. En fremur segir hann að þessi kosning á Seltjarnarnesi hafi gengið betur fyrir sig en áður og almenn ánægja hafi verið með rafrænar kosningar varðandi Reykjavíkurflugvöll og kosningu í miðstjórn Alþýðusambandsins.

Og hvað leggja menn til? Að leggja niður áform um innleiðingu kosningar-hugbúnaðar. Þetta eru menn sem hafa jafn mikið vit á tölvum og formenn stjórnmálaflokka hafa á því að hemja skap sitt. Þessir sömu menn kaupa sér matvæli, stunda bankaviðskipti, panta sér flugmiða og kjósa um málefni og lög er varða okkur öll allt með hjálp tölvu. Í raun er sára lítið hægt að stunda viðskipti hér á landi án þess að tölva komi þar að máli. Hugsanlega dettur mönnum næst í huga að geyma peningana sína í kodda heima hjá sér vegna þess að reiknistofa bankanna varð þess valdandi, í þúsundasta skiptið, að ekki var hægt að taka út pening eða versla með kreditkorti síðast þegar farið var og verslað.
Hver eru rökin með rafrænum kosningum?
Rafrænar kosningar spara tíma.
Augljós staðreynd
Rafrænar kosningar eru öruggar.
(Öryggisstaðall sem notaður var við gerð þess hugbúnaðar er ég hef þekkingu á uppfyllti fyllilega öll skilyrði og meira til.)
Rafrænar kosningar eru einfaldasti máti kosninga fyrir alla aðila.
(Eini munurinn fyrir kjósanda er að hann merkir við á skjá í stað bréfs. Stærsti munurinn fyrir þá er standa að kosningum er að þurfa ekki, þrátt fyrir að vera á fótum, að telja svo tímunum skiptir atkvæði.)
Það er hægt á einfaldan hátt að útbúa seðil sem gefur fólki kost á að skila auðu eða ógildu.
Útstrikun og breytingum á röð lista er mjög auðveld í framkvæmd.

Hver eru rökin gegn rafrænum kosningum?
Nauðsynlegt er að halda þjóðinni vakandi langt fram á nætur.
(Þó að venja sé í þjófélaginu fyrir því að skemmta sér þá þarf ekki að nota það sem ástæður þess að velja ekki rafrænar kosningar)
Við viljum eiga kost á því að gera ógilt.
(Það er ekki vandamál eins og áður hefur verið rætt.)
Nauðsynlegt er fyrir lýðræði þessa lands að hægt sé að semja eina vísu eða svo þegar í kjörklefann er komið.
(Þessi rök falla um sjálft sig því kosningar eru ekki vetvangur ljóðaskrifa eða níðyrða.)
Í Bandaríkjunum klikkuðu þær!
(Í Bandaríkjunum var ekki kosið rafrænt og þar var heldur ekki talið rafrænt nema að því leiti að það voru talningarvélar sem töldu kjörseðla ef að við getum talað um það sem rafrænt. Þær vélar sem voru notaðar í bandaríkjunum eru sumar hverjar hundrað ára gamlar og virka á svipaðan hátt eins og gatari. Kjörseðlar voru í efnislegu formi og átti að gata á ákveðnum stöðum sem margir kvörtuðu yfir að væru villandi staðsettir, alla vega í sumum ríkjum Bandaríkjanna. Það voru í raun kjörseðlarnir sem klikkuðu ekki vélarnar sem notaðar voru í kosningunum.)

Ég vill benda á að í kosningum sem framfóru núna í maí síðastliðin þá voru kærðar talningar á tveimur stöðum og í höfuðborg landsins klikkaði talningavél sem og að villa kom upp við talningu, þar er nefninlega gamla góða skilvirka kerfið í gangi.
Halldór Blöndal, forseti Alþingis og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, telur ekki vera ástæðu til að samþykkja breytingartillögu á lögum um kosningar. Sagði hann í atkvæðagreiðslunni sem fram fór um umrædda beitingatillögu að hann hefði langa reynslu af því og að það hefði gefist vel að krossa með blýanti við þann lista sem menn vildu kjósa, en fremur sagði hann. "Ég hygg að aðalatriðið sé að atkvæðið komist til skila til þeirra sem viðkomandi vilja kjósa en ekki sé verið að flækja málin með því að elta tæknina í þessum efnum," Að því loknu fór Halldór fram á það að atkvæði um þingmál yrðu ekki greidd með rafrænu kerfi þingsins heldur með nafnakalli.
Svona leikaraskapur og barnalæti eru undarlega hjá upplýstum mönnum. Hver er munurinn á því að greiða með rafrænum hætti við Alþingi Íslendinga, þar sem mikilvægar ákvarðanir eru teknar með slíkum hætti, og að greiða í kosningum til Alþingis eða sveitastjórna? Ég bara spyr.
Margar ástæður hafa verið nefndar fyrir því að innleiða og innleiða ekki nýjungar í tæknimálum en ástæður á móti hafa ekki snúist um rök heldur forneskjulegan vana viðkomandi aðila. Aðal ástæðan í dag virðist vera hræðsla ráðamanna landsins við þau atkvæði sem áður hafa verið ógild, og ef aðeins er um að ræða val á milli fárra flokka í fámennum sveitarfélögum þá sjá þeir að hvert atkvæði er farið að skipta máli. Þeir ráðamenn landsins er lúta flokki sjálfstæðis vita af því og hafa séð það í gegnum árin að þeir eru ekki með meirihluta hvort sem það er á landsvísu eða í Reykjavíkurborg en í Reykjavík hafa þeir þó náð meirihluta með minnihluta atkvæða.

Við getum ekki snúið baki við framþróun. Því ættum við ekki að vera í fararbroddi á þessu sviði eins og á öðrum? Því við þurfum ekki alltaf að fara á pósthúsið til að ná tali við nágrana okkar.