þriðjudagur, nóvember 12, 2002

Frábærlega æðislega stórkostlegt
Eftir stríð í Japan, átti sér stað skipulögð breyting á hugsunarhætti. Þjóðfélag sem lifir eftir fornum venjum, siðum og þjóðarstolti þurfti skyndilega á hjálp að halda. Búið var að leggja landið nánast í rúst og það þurfti gríðarlegt þjóarátak til að lyfta veldi samuræa aftur til vegs og virðinga. Eitt af því sem Japanir tóku upp á var óhófleg notkun lýsingarorða í þeim tilgangi að draga fram hvað hlutir, landið, fólkið og hugmyndir Japana væru nú góðar. Bjartsýni var nauðsinleg til að vel tækist til. Sem færir okkur að því sem mig langaði að tala um. En það er hugsunarháttur okkar íslendinga. Hér segja skoðanakannanir okkur að við séum hitt og þetta, þar á meðal ánægðasta, ríkasta, fallegasta og klárasta fólk í heimi(miðað við höfðatölu) samt sem áður er nöldur mér í blóð borin. Ekki bara mér heldur vel flestum íslendingum. Við gleðjumst yfir óförum annarra, öfundum velgengni og þolum ekki pólitíkusa. Bónusfeðgar eru nú svo ríkir að við skiljum það ekki. Bónus hefur staðið fyrir mestu kjarabótum sem við íslendingar höfum fengið frá því að við skriðum út úr kofum okkar og fórum að dýrka kapítalismann. Ég leyfi mér að fullyrða að aldrei í sögu íslands hafi eitt fyrirtæki gert jafn mikið fyrir litla manninn. (reyndar er ég ekki mjög sagnfróður maður). Flest okkar sem yfir höfuð versluðum og verslum en í Bónus kunnum mjög vel við það fyrirtæki þangað til að allt í einu fer að heyrast nöldur frá birgjum um að einokunarstaða Bónus væri orðinn óþolandi. Að nú ættu þeir markaðinn og gætu gert það sem þeir vildu til að pína þá niður. Ég spyr nú bara: Og hvað með það? Þetta eru sömu birgjar og skelltu áhrifum gengislækkunar íslensku krónunnar út í þjóðfélagið um leið og hún átti sér stað núna fyrir skömmu, en hirtu allan gróðann af því þegar krónan var í sem mestum uppgangi. Þetta eru menn sem kennt hafa ríkinu um að hérna sé svo hátt vöruverð, og nöldrað yfir því hversu miklar álögur eru á einstaka vöruflokka. Sömu aðilar og mættu gengisfellingu krónunnar 79(eða þar um bil) með því að halda nánast óbreyttu verði. Gott dæmi um hvernig þessir birgjar hafa hnýtt skóinn að okkur sem kallast eigum alþýðan er þegar tekin var af skattur á bíóhúsum(hér tala ég um bíóhús sem birgja og það eru þau flest því þau eru í eigu þeirra sem flytja inn bíómyndir hér á landi). Skattur sem fyrirtækin höfðu kvartað yfir lengi og sagt að spornaði gegn því að íslendingar færu í bíó. Síðan hefur verð á bíómiða farið úr 500 krónum í 850 krónur, 94% hækkun( muna eftir að draga skattinn frá). Mér telst til að skatturinn hafi numið 14% áður en hann var afnuminn. Þetta var árið 1995. Miðað við þessa hækkun á verði þá ætti ég að vera að borga tæplega 160 krónur fyrir mjólkina, 194 krónur fyrir hálfan lítir af kók, 7566 krónur fyrir þriggja mánaða strætókort og svo mætti lengi telja. Til að mæta þessari hækkun. Ef við gefum okkur að allt hafi nú hækkað í þjófélaginu í samræmi við þessa hækkun þá þurfa grunnlaun 20 ára einstaklings að vera tæplega 145 þúsund krónur. Það er endalaust hægt að taka dæmi. Nú nýverið voru aðrir feðgar að kaupa Landsbankann fyrir nokkra milljarða. Hvað var það fyrsta sem fólki datt nú í hug? Svakalega gengur þeim nú vel? Nei. Gott framtak hjá þessum feðgum að ná að koma með fjármagn inn í landið? Nei. Kjaftasögur fóru í gang um að nú væri sjálfstæðisflokkurinn að verki en og aftur (Ég minni á það að það var að undirlægi sjálfstæðisflokksins sem fullkomlega stöndugt fyrirtæki Hafskip fór á hausinn, en sá er þar sat meðal annarra í fararbroddi er annar feðgana). Kjafta saga númer tvö var sú að núna var verið að leggja undir sig banka (sem greiða þurfti einhverja milljarða fyrir) í þeim tilgangi að ná sér í ómetanleg listaverk íslensku þjóðarinnar. Já raunveruleikinn er mun ótrúlegri en skáldverkin sem þegnar þjóðarinnar hafa upp hugsað. Það vildi ég óska að við gætum þá allavega risið upp og sagt eins og Japanir:"frábærlega æðislega stórkostlegir arðræningjar" og farið í verkfall yfir því hvað við höfum það nú skítt og aðrir hafi það betra en við. En frekar held ég að íslendingar láti skatta- og verðlagshækkanir yfir sig ganga en að sína samstöðu og viðurkenna hvernig á okkur er traðkað á degi hverju.
Ef þú hefur náð að lesa svona langt þá tek ég hattinn ofan fyrir þér. Einhver flokkur manna kvartaði yfir því að hér væri bara neikvæð umræða svo ég ákvað að fara virkilega að nöldra. Kveðja Valli

Engin ummæli: