föstudagur, júní 04, 2004

Breytingar á útvarps- og samkeppnislögum

Hér að neðan gefur að líta bréf sem var sent á mig. Hér er grátið yfir því að starfsöryggi sé í hættu. Ég skil að vísu ekki hvernig maðurinn getur talað um starfsheiður þegar hann sjálfur hvetur fólk til að skrá sig gegn sannfæringu sinni. Ef þetta er formaður blaðamannafélagsins (hann sendir þennan póst í eigin nafni en ekki sem formaður blaðamannafélagsins) hvernig eru hinir? Voru starfsmenn norðurljósa dag og nótt að skrá fólk á þennan lista? Mér segir svo hugur um. Mér þætti líka gaman að vita hversu margir af þeim sem skráðu sig eru í raun kosningabærir. Ég segi ekki að ég sé samþykkur málsmeðferðinni í Alþingi en það kemur frumvarpinu (þetta eru víst orðin lög í dag) ekkert við hvort við erum ósátt við málsmeðferð eða ekki. Frumvarpið er ekki gallað þetta eru örfáar viðbætur og breytingar. Skoðum þessar breytingar aðeins.

Lög

um breytingu á útvarpslögum, nr. 53/2000,
og samkeppnislögum, nr. 8/1993.

1. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. útvarpslaga, nr. 53/2000:

a. 2. mgr. orðast svo:
Menntamálaráðherra skipar þrjá menn í útvarpsréttarnefnd til fjögurra ára og jafnmarga til vara. Tveir skulu skipaðir samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar en einn skipar ráðherra án tilnefningar og skal hann jafnframt vera formaður nefndarinnar. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt og skal varamaður formanns jafnframt vera varaformaður nefndarinnar. Nefndarmenn og varamenn þeirra skulu uppfylla starfsgengisskilyrði héraðsdómara. Nefndinni er heimilt að kalla sér til ráðgjafar og aðstoðar sérfróða aðila eftir því sem hún telur þörf á.

b. Á eftir 3. mgr. koma fjórar nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
Útgáfa útvarpsleyfis er háð eftirfarandi skilyrðum:

-a. Óheimilt er að veita leyfi til útvarps til fyrirtækis sem hefur að meginmarkmiði rekstur sem er óskyldur fjölmiðlarekstri. Einnig er óheimilt að veita útvarpsleyfi fyrirtæki sem er að meira en 5% í eigu fyrirtækis eða fyrirtækjasamstæðu í markaðsráðandi stöðu á einhverju sviði viðskipta. Þetta á þó ekki við ef ársvelta markaðsráðandi fyrirtækis eða fyrirtækjasamstæðu á síðastliðnu reikningsári eða eftir atvikum síðastliðnum 12 mánuðum er undir tveimur milljörðum kr. Telja skal með veltu móður- og dótturfyrirtækja fyrirtækja innan sömu fyrirtækjasamstæðu og fyrirtækja sem markaðsráðandi fyrirtækið eða fyrirtækjasamstæðan hefur bein eða óbein yfirráð yfir. Þá er óheimilt að veita fyrirtæki útvarpsleyfi ef annað fyrirtæki á meira en 35% eignarhlut í því. Sömuleiðis er óheimilt að veita fyrirtæki útvarpsleyfi ef fyrirtæki í sömu fyrirtækjasamstæðu eiga samanlagt meira en 35% eignarhlut í því. Jafnframt er óheimilt að veita fyrirtæki útvarpsleyfi ef það eða fyrirtæki í sömu fyrirtækjasamstæðu er útgefandi dagblaðs, á hlut í útgefanda dagblaðs eða það er að hluta eða öllu leyti í eigu slíks fyrirtækis eða fyrirtækjasamstæðu.

-b. Ákvæði a-liðar á einnig við ef á milli fyrirtækja eru önnur náin tengsl en samstæðutengsl sem leitt geta til yfirráða.
Með umsóknum um útvarpsleyfi skulu fylgja upplýsingar sem gera útvarpsréttarnefnd kleift að meta hvort skilyrðum 4. mgr. sé fullnægt og útvarpsréttarnefnd telur nauðsynlegar. Við mat á því hvort fyrirtæki eða fyrirtækjasamstæða sé í markaðsráðandi stöðu skal útvarpsréttarnefnd leita álits Samkeppnisstofnunar.
Skylt er þeim aðilum sem útvarpsleyfi hafa að tilkynna útvarpsréttarnefnd um allar breytingar sem verða á eignarhaldi eða öðrum skilyrðum sem kveðið er á um í 4. mgr. Útvarpsréttarnefnd getur afturkallað útvarpsleyfi ef breytingar verða á eignarhaldi eða öðrum skilyrðum þannig að í bága fari við ákvæði 4. mgr. Þó skal veita leyfishafa frest í allt að 120 daga til að koma eignarhaldi eða öðrum skilyrðum í það horf að samrýmist ákvæðunum. Hafi eignarhaldi ekki verið komið í það horf að samrýmist ákvæðum laganna innan framangreindra tímamarka skal leyfishafa vera heimilt að krefjast úrskurðar viðskiptaráðherra um sölu viðkomandi eignarhlutar. Viðskiptaráðherra skal þá með úrskurði skylda hlutaðeigandi til að selja þann eignarhlut sem ekki er samrýmanlegur ákvæðum 4. mgr. innan mánaðar. Hafi sala þá ekki farið fram skal afhenda viðskiptaráðherra hlutabréfin eða skilríki fyrir eignarhlutnum ásamt undirrituðu söluumboði. Hann skal þá fela óháðu verðbréfafyrirtæki að selja þann eignarhlut sem um ræðir til aðila sem uppfyllir skilyrði laganna.
Útvarpsréttarnefnd getur vikið frá skilyrðum 4. mgr. ef um er að ræða leyfi til svæðisbundins hljóðvarps.

2. gr.

Við 1. mgr. 8. gr. samkeppnislaga, nr. 8/1993, bætast sex nýir málsliðir, svohljóðandi: Samkeppnisstofnun skal láta útvarpsréttarnefnd í té álit skv. 5. mgr. 6. gr. útvarpslaga. Telji Samkeppnisstofnun að fyrirtæki kunni að vera í markaðsráðandi stöðu skal hún birta því greinargerð um málið sem nefnist frumathugun. Skal þar lýst helstu staðreyndum máls, meginskýringum Samkeppnisstofnunar og helstu niðurstöðum. Aðila skal veittur hæfilegur frestur til andmæla og skriflegra athugasemda og til að koma að gögnum. Að öðru leyti gilda ákvæði stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, um álitsgjöf Samkeppnisstofnunar. Niðurstaða Samkeppnisstofnunar sætir kæru til áfrýjunarnefndar samkeppnismála skv. 9. gr. laga þessara.

3. gr.

Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

Útvarpsréttarnefnd skal vera heimilt að framlengja útvarpsleyfi sem falla úr gildi innan tveggja ára frá gildistöku laga þessara, jafnvel þótt leyfishafi uppfylli ekki skilyrði 1. gr. laganna, þó aldrei lengur en til 1. júní 2006.


Samþykkt á Alþingi 24. maí 2004

Engin ummæli: