miðvikudagur, mars 16, 2005

Frítt í strætó....núna

Allt sem við gerum í dag þarf að gerast núna. Ég man til að mynda eftir því þegar síminn heima hjá mér var tengdur í vegg og það var ekki hægt fyrir sitt litla líf að færa sig nema um svona eins og einn metra á meðan maður talaði í hann. Ég komst af þá, lífið var ekkert erfitt, ég gerði bara plön fram í tímann. Hringdi áður en ég lagði af stað og lét fólk vita hvert ég var að fara.

Hversvegna í ósköpunum lifum við lífi okkar eins og því sé að ljúka á næstu sekúndu. Við tökum símann með okkur hvert sem við förum, eigum tvo til þrjá bíla hvert heimili og erum öll nettengd svo við missum nú ekki af fréttum í L.A.

Einfaldasta útskýringin á þessu er, þótt ótrúlegt megi virðast leti. Við hreinlega nennum ekki að plana aðeins fram í tímann, bíða eftir strætó sem kemur, eða réttarasagt kemur ekki á ákveðnum tímu. Við viljum fara út, fara þangað sem við ætluðum að fara og koma svo aftur heim, án þess að standa í eina mínútu úti í þessu veðri.

Mér lék forvitni á að vita hvort ekki væri hægt að sannreyna þessa kenningu mína. Þannig að ég ákvað að skoða þetta í sögulegu samhengi, ég varð mér út um gögn, sem að ná til 1992 og gefa vísbendingu um hvernig þróunin hefur verið í gegnum tíðina. Þar til við komum að því sem er kallað tæknibyltingu nútímans, internet og farsímar í guðalíki. Það sem ég var að leita að var vísbending um hvort það væri verðlag, stöðumælaverð, eða fjöldi ferða sem hefði áhrif á fjölda þeirra sem nýta sér strætó. Niðurstaðan var í reynd sláandi, ekki bara fyrir sjálfa útkomu könnunarinnar heldur sú staðreynd að strætóferðum hefur fækkað frá árinu 1967 úr 1200 niður í 955 árið 1992. og það þrátt fyrir að um verulega fólksfjögun hafi átt sér stað á umræddum tíma. Sem sagt, þjónustan fór versnandi.

Niðurstaða könnunarinnar var á þá leið að fylgnin var á milli fjölda ferða og fjölda þeirra sem ferðuðust með strætó. Hvað lærum við á því. Við lærum ekki neitt, en mögulega geta forsvarsmenn strætó tekið þetta til sín og breytt því leiðarkerfi sem 5 sinnum á undanförnum 10 árum hefur verið breytt til hins verr. Gefum okkur það að ferðum væri fjölgað, þannig að strætó væri á 5 mínútna fresti á álagstímum og 15 mínútna fresti á dauðutímunum, eins og gerist í flestum stórborgum. Má gera ráð fyrir að notkun strætó myndi stóraukast. Ég tala nú ekki um ef við myndum koma okkar framtíðarnáttúruvæðingu í verk og hreinlega hafa frítt í strætó svo að fólk hreinlega neyddist til að taka þá. Þá fyrst værum við að tala saman í annríki og amstri dagsins.

Það er mat mitt að með einföldum aðgerðum og rúmlega 3 milljörðum frá ríki og sveit á ári er hægt að gera Reykjavík að raunverulegri náttúruparadís án þess að allt sé krökt í bílum og óskapnaði. Hafðu það í huga að í dag kostar leiðarkerfi 2,4 milljarða og almenningur (fátækir, ég sé allavega ekki Jón Ásgeir fyrir mér í strætó) borgar tæpan helming með svokölluðum strætómiðum. Því í ósköpunum ekki að skella þessu öllu í fjárlög og um leið fækka ökutækjum í borg sem yfir hundrað sinnum á síðasta ári mældist yfir meingunarmörkum. Hjálpum þeim lötu og björgum um leið höfuðborginni.


Engin ummæli: